Þegar vonin ein er eftir

Ákvörðunin sjálf er í raun og veru sáraeinföld. Það er framkvæmdin sem fylgir í kjölfarið sem er öllu erfiðari. Hvernig flyst einstæð og eignalaus móðir einhverfs drengs milli landa, svona einn, tveir og þrír? Heldur hún kokteilboð, smellir barninu í ferðatösku og smeygir sér í háa hæla? Veifar tígurlega við landganginn og hóar í barnapíuna, sem hefur fylgt þögul í humátt á eftir glæsikvendinu með litla drenginn, stórbrotnu vonirnar í farteskinu og ákveðnina eina að vopni?

Hvað fer í gegnum huga konu á miðjum aldri sem ákveður upp úr þurru að taka sig upp frá fóstjörðinni og flytjast yfir hafið með lítið barn, sem er með greiningu upp á dæmigerða einhverfu frá Íslandi? Eiga norrænir borgarar rétt á túlk? Getur verið að þroskateymið taki að sér þýðingar á ensku? Getur móðir farið fram á slíkt? Heimtað alþjóðlegar útlistanir á núll komma einni, snarað sér í strigaskó og keypt farmiða?

Hvaða rétt hafa Íslendingar á meginlandi Skandinavíu? Eru Norðmenn frændur í raun?

Þessar og fleiri spurningar fóru gegnum huga minn þegar ákvörðun hafði á annað borð verið tekin. Að segja upp vinnunni reyndist furðanlega létt. Yfirvofandi söknuðurinn eftir fóstjörðinni, kaldri Kókómjólk og blaðrandi öndum á Tjörninni voru mér síst í huga þegar ég gekk loks inn á skrifstofu Icelandair, keypti farmiða aðra leið til útlanda og ákvað að snúa ekki aftur heim.

Það er flókið að flytjast milli landa með einhverft, þriggja ára gamalt barn sem enn notar bleyju og hefur ekki náð fullum tökum á eigin móðurmáli. Flutningunum fylgja pappírar, óskir um sérþjónustu, þýðingar yfir á annað tungumál, fæðingarvottorð, staðfesting á forræði og svo aftur staðfesting frá Tryggingarstofnun sem sýnir fram á að greiddar höfðu verið umönnunarbætur vegna þroskahömlunar barns.

Barnsfaðir minn er látinn. Þess vegna þurfti ég staðfestingu á andláti hans frá Þjóðskrá. Það reyndist mér erfiðast alls, því við vorum ekki skráð í sambúð þegar andlát hans bar að. En með einhverju móti varð ég að geta sýnt fram á að ég hefði fullt forræði yfir drengnum og að faðir hans hefði ekkert við ferlið sjálft að athuga, þar sem hann væri látinn.

Í minningunni voru þetta erfiðustu skrefin sem ég tók. Samtölin sem ég átti við lögfræðideild Þjóðskrár. Þýðingarferlið á greiningargögnum barnsins. Síðasta viðtalið sem ég átti við heimilislækni drengsins þegar ég sótti bólusetningarskírteinið hans.

Þessi skref eru mér minnisstæðust. Þessi voru mín erfiðustu skref á leið til útlanda.

Seinna meir, þegar ég svo hafði lent í nýju landi, átti mér eftir að lærast að öll sú vinna sem ég lagði á mig við eldhúsborðið heima, stuttu áður en að brottför kom; rétt áður en símanum var lokað og rafmagnið var tekið af íbúðinni – öll sú vinna átti eftir að margborga sig. Hver einasta mínúta sem ég varði í undirbúning svo barnið mitt mætti eiga von á faglegum viðtökum ytra, átti eftir að margskila sér í þýðu viðmóti, nægri upplýsingagjöf, hjálplegum móttökum og auðveldari leið að okkar markmiði; að tryggja syni mínum þjónustu sem honum sæmdi þegar út var komið.

Það er ekkert auðvelt að flytja til útlanda með lítið barn. Að kveðja allt sem áður var kunnuglegt, að skella í lás í siðasta sinn og líta fullan hjúkrunarfræðing hornauga klukkan fjögur á laugardagsnóttu. En það er ekki ógerlegt. Í raun er ekkert ógerlegt ef vonin ein er fyrir hendi.

Hvern hefði órað fyrir því að ég myndi leysa svarið við lífsgátunni í ókunnri borg, með bilaða barnakerru að vopni, þanda nasavængi um borð í norskri innanbæjarlest og eintómar vonir í gatslitnum rassvösum, blaðrandi á bjagaðri „norrænsku“ með finnskum hreim?

SHARE