Týndist í flutningum

Ég er manneskja sem hef flutt oftar en ég kæri mig um að telja og það er alltaf jafn helv*** leiðinlegt. Þetta er bara eitt það leiðinlegasta í heimi og ég las það einhversstaðar að flutningar væru einn af mestu streituvöldum sem fólk getur upplifað, fast á hæla skilnaðar og ástvinamissis. Ég sel það ekki dýrara en ég keypti það og kannsk full dramatískt að setja þetta í svipaðan flokk, en leiðinlegt er það, ekki spurning.

Ég var að leita að mús fyrir tölvuna mína sem ég keypti einu sinni og var svo ógeðslega fín en ég hef ekki notað hana síðan ég bjó á seinasta heimili. Ekkert merkileg, nema hún var með ljósi í sem breytti um lit og mér fannst hún bara flott. Ég var búin að leita allsstaðar og svo komst ég að þeirri niðurstöðu að hún hlyti bara að hafa týnst í seinustu flutningum. Hvað er það samt?

Ég hef svo oft „týnt hlutum í flutningum“ og oftar en ekki er það eitthvað svona dót, snúrur af rafmagnstækjum, geisladiskur, einn hnífur, skópar, kjóll eða annað slíkt. Hvernig getur það samt gerst? Þetta eru allt hlutir sem eru ekki einir og stakir í einhverjum kassa sem týnist… og alltaf afgreiði ég það sem svo að þetta hljóti „að hafa týnst í flutningunum“.

Það er ekki heil brú í þessu! Ekki nema þá að einhver sem er að hjálpa mér að flytja sé að opna kassana, taka einn hlut úr honum og líma fyrir aftur. Eða að ég gleymi einum hlut í íbúðinni sem nýir íbúar láti ekki vita. Eða að einn hlutur ákveði að detta úr kassanum í flutningabílnum eða úti á bílastæði og það vilji svo til að ENGINN taki eftir  því. Það er ekkert af þessu að „meika sens“.

Ég skil þetta ekki, en eitt veit ég þó núna, og það er það að „týndist í flutningunum“ er ekki löggild afsökun fyrir óskipulagi mínu og ég þarf greinilega að fara í gegnum kassana sem eru niðrí geymslu.

Góðar stundir

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here