Undir stjörnubjörtum himni

Við höfum öll þurft að takast á við tíma sem við höfum ekki upplifað áður undanfarna mánuði. Fyrir marga hefur þetta verið mjög erfitt, fólk hefur misst vinnu, verið í miklu fjárhagsleguóöryggi ásamt því að hafa heilsufarslegaráhyggjur og áhyggjur af framtíðinni. Það hafa allir gott af því að breyta um umhverfi, brjóta upp þessa daga sem virðast allir vera eins og verða í mörgum tilfellum einslitir.

Við hjónakornin ákváðum að skella okkur í Bubble í Ölvisholti, eina nótt á laugardaginn. Ég verð að viðurkenna að ég var alveg fáránlega spennt fyrir þessu og leið svolítið eins barni sem var að bíða eftir jólunum. Svo rann upp laugardagur og við lögðum af stað út úr bænum.

Ölvisholt er staðsett fyrir utan Selfoss, þannig að þetta er ekki nema rúmur klukkutími að keyra. Við tókum auðvitað bara smáræði með okkur fyrir eina nótt, mat og svo auðvitað laugardagsnammið. Það var fallegt veður á laugardaginn, sól en frekar kalt, eiginlega bara ískalt. Við bókuðum hellaferð um miðjan dag og skoðuðum hellinn Tintron, svakalega skemmtilegt en við létum okkur síga 13 metra niður í jörðina til að sjá hellinn.

Það var svo um 6 leytið um kvöldið sem við komum á áfangastað og orðið niðadimmt. Okkur var vísað að okkar bubblu og gengum fallegan stíg í gegnum lítinn skóg með lukt í höndunum. Mér leist strax vel á þetta!

Við gengum að okkar bubblu sem við sáum í faðmi trjánna, lýst mjúkri og notalegri birtu. Við nutum okkar alveg í botn! Það var alveg geggjað að liggja í mjúku rúminu með góðar sængur í hlýjunni og horfa upp í stjörnubjartan himininn. Trén bærðust í andvaranum og við í skjóli. Þetta var algjörlega einstakt. Ég ætlaði ekki að tíma að fara að sofa því himininn var svo svakalega flottur með milljón stjörnum. Ég reyndi auðvitað að ná myndum af þessu en það er ekkert sem jafnast á við upplifunina.

Morguninn var ekki síður dásamlegur.

Þá sáum við umhverfið með nýjum augum og skáluðum í freyðandi tei í morgunsólinni.

Göngustígurinn og grasið í kringum bubbluna var eins og stráð hefði verið glimmeri yfir allt og jörðin sindraði.

Sólin var hægt og rólega að koma upp og við fengum að sjá svæðið í fallegu ljósi áður en við keyðum beinustu leið heim í borg óttans.

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here