Vítamín – mikilvægur fróðleikur

 

  • Hvað eru vítamín?

 

Án vítamína er ekkert líf. Þau eru nauðsynleg til að viðhalda lífinu. Skortur eða ofneysla vítamína getur valdið sjúkdómum. Flest okkar fá nægileg vítamín úr fæðunni, en sumir þurfa viðbót. Við þurfum á öllum vítamínunum að halda.

Sumir halda, að vítamín geti komið í stað matar, eða minnkað þörf fyrir mat. Það er alrangt. Þau innihalda engar kalóríur, prótein, steinefni, fitu eða vatn, en þau eru nauðsynleg, vegna upptöku þessara efna til að þau nýtist okkur. Eins konar hjálparefni, mætti segja.

Þótt aðeins sé skortur á einu vítamíni, getur komist ójafnvægi á starfsemi líkamans. Öll vítamínin eru líkamanum mikilvægir hvatar. Þess vegna er nauðsynlegt að borða eins fjölbreytta fæðu og hægt er.

 

  • Er nauðsynlegt að taka inn vítamínpillur?

 

Fjölbreytt mataræði ætti að nægja. Mörgum finnst þó vissara að taka inn vítamíntöflur til öryggis. Það getur þó snúist upp í andhverfu sína og valdið skaða. Það á sérstaklega við um fituleysanleg vítamín eins og: A, D, E og K vítamín. Líkaminn á miklu erfiðara með að skilja út fituleysanlegu vítamínin ef maður neytir þeirra í of miklum mæli heldur en vatnsleysanlegu vítamínin. Margir gera sér ekki grein fyrir því , að grænmeti og ávextir missa smám saman vítamín ef þau eru geymd lengi. Þess vegna er svo mikilvægt að hafa aðgang að fersku hráefni til að fá sem mest vítamín úr fæðunni. Hraðfrystur matur, sem var frystur alveg ferskur, getur stundum verið auðugri af vítamínum en grænmeti, sem hefur verið geymt lengi, eða við stofuhita.

 

Sjá einnig: Hvað gerir D-vítamín fyrir þig?

 

  • Hvaða vítamín eru þekkt?

 

Af og til uppgötvast ný vítamín. Vafalaust eru enn mörg ófundin. En þau, sem nú eru þekkt eru þessi:

  • A, B1, B2, B3, B5, B6, B10, B11, B12, B13, B15, B17, C, D, E, F, G, H, K, L, M, P, T, U.

Vítamín og steinefni eru oft nefnd í einu vetfangi, eins og þau væru það sama. En þau gegna mismunandi hlutverki. Steinefnin eru vítamínunum til aðstoðar þannig að þau starfi rétt: Tíu mikilvægustu steinefnin, sem eru ómissandi fyrir líkamsstarfsemina og ráðlagður dagskammtur er þekktur fyrir:

  • Kalk(Kalsíum), joð, járn, magnesíum, fosfór, kopar, mangan, króm, molybden, selen og sink.

 

  • Hvaðan fáum við vítamínin?

 

Flest vítamín eru unnin úr náttúrulegum mat. A-vítamín er unnið úr lýsi. B-vítamínin fást úr geri eða lifur. C-vítamín eru oft unnin úr rósaberjum eftir að blöðin hafa fallið og E-vítamín eru unnin úr soyabaunum eða maís.

Einnig er hægt að framleiða vítamín og getur það haft bein áhrif á virkni þeirra. Verksmiðjuframleitt C-vítamín inniheldur til dæmis einungis askorbínsýru, en náttúrulega unnin C-vítamín eru flóknari í uppbyggingu og þetta er talið skipta máli við upptöku líkamans á C-vítamíni.

 

  • Hvernig er best að geyma vítamínpillur?

 

Mikilvægt er að geyma þær á dimmum, svölum stað. Annars er hætt við uppgufun úr pillunum. Vítamínin á að geyma í lokuðum ílátum, gjarnan í kæli. Setja má nokkur hrísgrjón í glasið. Þau draga til sín raka.

 

  • Hvenær er best að taka inn vítamín?

 

Vítamínpillur á helst að taka inn eftir máltíð t.d. eftir aðalmáltíð dagsins. Aldrei á fastandi maga. Annars eru meiri líkur á þau skolist burt með þvaginu. Þetta á sérstaklega við um vatnsleysanlegu vítamínin B og C, en þau fituleysanlegu A, D, E og K geta geymst í líkamanum allt að sólarhring og auk þess að hluta til í lifrinni enn lengur.

 

Fleiri heilsutengdar greinar eru á doktor.is logo

SHARE