Antisportisti fer í crossfit

Í upphafi árs fyllast líkamsræktarstöðvarnar af fólki sem hefur góð fyrirheit um að bæta heilsu sína og líkamlegt ástand. Sumir eru fljótir að láta sig hverfa og verða svokallaðir styrktaraðilar en aðrir ná að koma sér í gang og gera líkamsræktina að föstum lið í lífinu. Ég var ein af þessu fólki  sem hafði ákveðið að gera eitthvað í málunum og hafði um áramótin, í einhverri blöndu af undanlátssemi og samviskubiti yfir áralöngu sófahangsi, skráð mig á byrjendanámskeið í Crossfit. 
Málið er að maðurinn minn er búinn að vera tala um crossfit í heilt ár. Þegar hann talar um Crossfit þá lyftist hann allur upp og verður voðalega spenntur og glaður og þreytist ekki á að sýna mér myndbönd af hinum ýmsu æfingum. Það jaðrar stundum við að ég haldi að hann fái borgað fyrir að vera í einhverju sérstöku Crossfit trúboði svo mikill er áhuginn og eldmóðurinn. 
Ég hef haft mjög miklar efasemdir um að þetta sport sé eitthvað fyrir antisportista eins og mig. Eina íþróttagreinin sem ég hef stundað með einhverjum árangri er skák og ég minnist  leikfimitímanna í grunnskóla þar sem ég var iðulega valin síðust í öll lið og þótti ekki líkleg til stórafreka. 
Það sem vakti forvitni mína, fyrir utan augljósan árangur betri helmingsins sem vakti sífellt meiri athygli fyrir líkamlegt atgervi, var liðsheildin í hópnum sem æfði reglulega saman. Þetta var nokkuð áhugaverður félagsskapur og allir að skemmta sér vel. Eitthvað hlaut þetta að vera. 
Það var með blöndu af kvíða og eftirvæntingu að ég fór í fyrsta tímann á grunnnámskeiðinu. Þar tóku á móti mér tveir mjög stæltir þjálfarar sem fullvissuðu hópinn um að Crossfit væri fyrir alla. Ég sá fljótt að þarna var góður hópur á ferð. Fyrstu æfingarnar voru furðu upplífgandi þrátt fyrir að ég hafi farið langt út fyrir þægindahringinn minn. Hver gæti trúað því að sipp, kassahopp og upphífingar gætu verið uppskrift að skemmtilegri æfingu!
Ég komst að því að fólk á öllum aldri og í alls kyns líkamsástandi stundar Crossfit. Crossfit er í raun ákveðinn lífsstíll. Æfingarnar eru fjölbreyttar og hver og einn er á sínum hraða og á sínum forsendum. Sumir hafa bakgrunn í öðrum íþróttum en alls ekki allir. En það sem vekur mestu furðu  mína og aðdáun er að sjá konur í fíngerðara lagi lyfta nýðþungum lóðum eins og ekkert sé og henda þeim svo í gólfið með miklum stæl. Það er eitthvað ávanabindandi og valdeflandi við að rífa í lóð og finna að maður er í raun talsvert sterkari en maður áttar sig á. 
Nú er svokallað CrossFit Open 2019 byrjað en það er keppni sem fer fram um allan heim og allir sem hafa áhuga geta tekið þátt. 
Og það er magnað að sjá töfrana í kringum þetta. Fólk mætir og keppist við að gera æfingar sem jaðra við að vera ekki gerlegar fyrir mannfólk. Enda eru þetta hálfgerð ofurmenni sem ná langt í þessari grein og við getum sannarlega verið stolt af okkar afreksfólki sem vinnur hvern áfangann á eftir öðrum á alþjóðlegum mótum.
Ég verð á hliðarlínunni að hvetja aðra Crossfittara þetta árið. En á næsta ári verð ég með í fjörinu!
SHARE