Edda Falak berst gegn kvenfyrirlitningu og fordómum

Það eru eflaust fáir sem hafa ekki heyrt nafnið Edda Falak nefnt á síðastliðnu ári, en hún er CrossFit stjarna og áhrifavaldur. Mér fannst ekki annað hægt, verandi með vefinn Hún.is, en að taka viðtal við þessa flottu konu sem berst fyrir ýmsum málefnum í þágu kvenna.

Ég bauð henni heim og Edda mætti stundvíslega, fersk, með snúð í hárinu og sitt vingjarnlega viðmót. Við settumst niður og fékk að kynnast henni betur og fékk smá innsýn í það hvernig líf hennar er þessa dagana.

Edda Falak Yamak eða Edda Falak, eins og hún er alltaf kölluð, á íslenska móður og líbanskan föður. Þau kynntust á Ítalíu, þar sem þau voru í námi og Edda fæddist þar en svo flutti litla fjölskyldan til Íslands þegar hún var 2 ára. „Ég hef bara farið einu sinni til Líbanon, þegar ég var svona 12 ára, og þá hitti ég alla fjölskylduna mína þar. Ég tala samt ekki arabísku, en mamma og pabbi töluðu saman á ítölsku og ég er alin upp við að það var töluð ítalska á heimilinu.“ Edda segir mér að hún eigi einn yngri bróður sem eru þremur árum yngri en hún, fæddur 1994.

Sjá einnig: Sigríður hætti á blæðingum eftir bólusetningu

Grunnskólaárunum varði Edda í Kópavogi, fór svo í Menntaskólann við Sund og svo í Háskóla Íslands áður en hún flutti til Danmerkur, með þáverandi kærasta sínum, þar sem hún lærði viðskiptafræði. Það samband endaði og Edda eignaðist danskan kærasta og var í Danmörku í 6 ár. Þegar þau hættu saman ákvað Edda að fara aftur heim. „Ég átti alveg vini þarna úti en fjölskyldan var hérna heima. Ég kom heim og ætlaði bara að finna mér eitthvað að gera,“ segir Edda en hún tók Master í „finance – strategic management“ í Copenhagen Business School. Aðspurð um hvort hún myndi vilja vinna við eitthvað tengt fjármálageiranum svarar hún: „Já ef það kæmi eitthvað spennandi starf upp, en ekki eins og staðan er núna.“

„Ég birti mikið af bikini myndum af mér“

Edda var með nokkur þúsund fylgjendur þegar hún kom heim sem höfðu farið að fylgja henni í gegnum CrossFit-ið en hún birti margt um heilsu og mataræði. Fylgi hennar hér á landi jókst gífurlega þegar hún kom heim, en hún hóf að birta mikið af myndum tengdum jákvæðri líkamsímynd og hvatti hún aðrar konur og stúlkur til hins sama. „Ég birti mikið af bikini myndum af mér og var að hvetja aðrar stelpur til að vera óhræddar við að birta nánast nektarmyndir.“

Instagram will load in the frontend.

Þegar ég spyr Eddu út í ástæðuna fyrir þessum gjörðum hennar segir hún: „Ég er lituð kona í mjög karllægum geira, þar sem ég menntaði mig í fjármálum og ég hef alltaf fundið fyrir ákveðnum fordómum og kvenfyrirlitningu, að ég þurfi að hylja mig og ég má ekki vera svona eða svona. Ég hef bæði fundið fyrir þessu í vinnu og í CrossFit. Ég er alin upp við það að vera mjög frjáls og foreldrar mínir hafa ekki sagt mér hvernig ég eigi að vera, hvernig ég eigi að klæða mig eða hvaða skoðanir ég eigi að hafa.“ Önnur ástæða fyrir þessu segir Edda að hafi verið að umræðan um „hefndarklám“ hafi verið mikil, en þá er verið að kúga fólk með hótunum um birtingar á nektarmyndum eða nærfatamyndum og með því að birta myndirnar sjálf/ur sé búið að slá vopnin úr höndum hins aðilans.

Eftir að Edda fór að birta svona myndir af sér segist hún hafa fengið mikið af viðbrögðum og mörg mjög óviðeigandi skilaboð. Fólk tók því, að ég birti bikini-myndir af mér, sem ég væri að biðja um að láta áreita mig, og ef ég „kommentaði“ á það svaraði fólk bara: „Við hverju bjóstu? Auðvitað er hann að áreita þig þegar þú ert að birta svona myndir af þér.“ Þá fór ég að hugsa: „Gefa Instagram myndirnar mínar einhverjum leyfi til þess að áreita mig?“ 

„Þegar ég les þessi orð finnst mér það ógeðslegt“

Eftir að hafa velt þessu fyrir sér ákvað Edda að láta ekki þar við sitja. „Fólk hélt að með því að birta nærfatamyndir af mér að ég vildi fá allar þessar „dick pics“ og fólk var að láta mig vita hvað það vildi gera við mig kynferðislega og biðja mig að koma og strippa. Mér blöskraði alveg og fór að pósta þessu og segja frá þessu, því þetta er ekki í lagi.“ Edda segist sjálf ekki taka þetta mjög nærri sér: „Ég sé ekki þetta fólk og fyrir mér er þetta bara enginn. En þegar ég les þessi orð finnst mér það ógeðslegt. Ég vil deila þessu með fólki og ekki þegja yfir þessu af því að þá fá þessir hlutir bara að „grassera“. Það er það sem stuðar mig svo mikið. Ástæðan fyrir kvenfyrirlitningu og til dæmis fordómum gegn samkynhneigðum, er að fólk leyfir þessu bara að „grassera“ og vill ekki taka afstöðu. 

Sjá einnig: Leitaði sér huggunar í mat og reyndi að flýja líðan sína

Edda segir að það erfiðasta við þetta allt sem hún hefur verið að gera sé áreitið: „Bæði það góða og það slæma. Það hafa allir skoðun á því sem þú ert að gera og það vilja allir hafa skoðun á því. Ég hef stuðning frá fólki sem styður umræðuna en svo er ég á móti með það sem er bara hægt að kalla „super haters“, sem eru að beita öllum sínum kröftum í að reyna að taka mann niður. Halda jafnvel að ef þeir geti tekið mig niður falli eitthvað veldi, sem er náttúrulega alveg bilað. En svo verður maður bara að halda áfram.“

Aðspurð um hvort „hatararnir“ séu meira karlar en konur segir Edda að karlar séu í miklum meirihluta. „Stærsti hópurinn myndi ég segja að væru ungir, fótbolta„sjomlar“ sem eru með fótboltamynd af sér í prófæl mynd. Sumir af þeim þola ekki að það sé einhver kona að tjá sig og hafa skoðanir á öllu og styðja ekki umræðuna og finnst hún ekki eiga rétt á sér,“ segir Edda og segir áreitið frá þessum hóp hafi vissulega aukist eftir KSÍ málið, enda hafi hún tjáð sig um það mál.

Engin leiðindi

Edda byrjaði með hlaðvarpið Eigin Konur ásamt Fjólu vinkonu sinni. Nýlega hætti þó Fjóla sem þáttastjórnandi með Eddu og hafa verið í gangi margar kjaftasögur eftir það: „Fólk vill oft trúa því að það sé einhver ágreiningur í gangi eða að konur hati hvor aðra en, það var algjörlega hennar ákvörðun að stíga út úr þessu, en ég vildi hafa hana áfram og ég sagði henni það. Þetta er rosalega mikil vinna og ef þú hefur ekki tök á að gera það sem þarf að gera, þá er eðlilegt að vilja draga sig út úr þessu. Það tekur alveg á að opinbera sig og skoðanir sínar og að taka þátt í öllum umræðum og ég skil það alveg. Enn sem komið er ætla ég bara að vera ein með þetta en svo sjáum við bara til.“

Edda er í sambandi með Kristjáni Helga sem hún segir að sé hennar stærsti stuðningsmaður: „Hann er alveg yndislegur.“ Kristján er voðalega lítið á samfélagsmiðlum en hann styður vel við bakið á henni þegar heim er komið.

Þegar ég spyr Eddu um framtíðina segir hún að hún vilji bara að það sem hún sé að gera muni hafa einhver samfélagsleg áhrif. „Innhólfið mitt er fullt af frásögnum kvenna af allskonar ógeðslegum atburðum. Konur hafa greinilega þörf fyrir að koma þessu frá sér,“ segir Edda og bætir við að stundum líti hún kannski út fyrir að vera reið á samfélagsmiðlum og það sé einfaldlega vegna þess að hún veit svo mikið af ógeðslegum hlutum sem má ekki tala um og má ekki opinbera, í það minnsta ekki eins og staðan er í dag. Hún segist vera orðin frekar ónæm fyrir leiðindunum en hún eigi einn eða tvo daga inn á milli þar sem hún er þreytt og buguð: „En svo er bara áfram gakk!“

Edda er sterk, réttsýn ung kona og henni fylgir ákveðinn kraftur sem mun eflaust koma henni langt í lífinu. Við hjá Hún.is munum allavega fylgjast spenntar með henni í framtíðinni

SHARE