Gnocchi með graskerssósu

Þessi frábæra uppskrift er frá allskonar. Ég átti sjálf ekki von á að ég myndi kunna að meta Gnocchi en ég féll alveg fyrir því.

Gnocchi (borið fram: Njokkí)  kemur frá orðunum nocchio sem þýðir kvistur eða  nocca sem er hnúi á ítölsku.

Það er ótrúlega gaman og einfalt að búa til alvöru gnocchi heima, og stundum þarf ekki fínar sósur með, bara smá smjör og ferska salvíu, eða velta því upp úr pestói.

Sjá einnig: Draumur með pipprjóma

Hér kemur þó uppskrift af gnocchi og svo dásamlegri graskerssósu með kúrbít, tómötum og ferskri salvíu.

Þetta tekur smá tíma eða um 2 klst, og því er um að gera að velja góða tónlist að hlusta á, opna vínflösku og njóta þess að vinna með dásamlegt hráefni. Ekki er verra ef þú getur fengið þér félagsskap við eldamennskuna, hvort sem það er til samræðna eða aðstoðar með flysjarann.

Ég skora á þig að prófa, hver veit nema að þú fáir gnocchi æði!

Gnocchi fyrir 4-5

  • 750gr kartöflur
  • 1 egg
  • 140gr hveiti
  • sjávarsalt

Byrjaðu á að sjóða kartöflurnar í vel söltu vatni.
Þegar þær eru soðnar skaltu flysja þær og láta þær kólna örlítið.

Þegar þær hafa kólnað þá leggurðu þær á stórt skurðarbretti og hakkar þær með stórum hníf, mér finnst ágætt að hafa þær ekki stappaðar/hakkaðar of fínt til að fá smá áferð.

Sláðu eggið saman í skál og dreifðu yfir kartöflurnar, hrærðu vel saman. Hnífurinn dugar ágætlega – til að spara uppvaskið.

Stráðu nú helmingnum af hveitinu yfir, hrærðu og veltu blöndunni með hnífnum.

Nú geturðu farið að bæta hinum helmingnum af hveitinu í og byrja að hnoða. Deigið er svolítið klístrað, en þú bætir eins miklu hveiti og þú vilt til að það verði meðfærilegt.

Ekki hnoða kröftluglega, veltu þessu um til að allt blandist saman og þú fáir deig sem þú getur unnið með.

Sjá einnig: Súkkulaðibitakökur

Skiptu deiginu upp í 8 bita. Taktu hvern bita fyrir sig og rúllaðu út í pylsu, á þykkt við þumalfingur.

Taktu hverja pylsu og skiptu henni upp í litla bita, hvert gnocchi á að vera rúmur sentimetri á lengd.

Þú getur valið hvort þú skilur gnocchiið eftir svona nýskorið eða hvort þú býrð til mynstur í það með gaffli. Þegar þú ert búin/n að búa til úr öllu deiginu þá stráirðu smá hveiti yfir gnocchi herinn þinn og býrð þig undir að fara að útbúa sósuna.

Þú getur líka soðið gnocchiið strax og velt upp úr pestói eða ólífuolíu. (sjá um suðu neðar)

Graskerssósa með kúrbít og tómötum

  • 500gr grasker (butternut, í bitum
  • 1 kúrbítur, þunnt sneiddur
  • 250gr konfekttómatar
  • 2 skallottulaukar
  • 2 hvítlauksrif
  • handfylli steinselja
  • 2msk smjör
  • 1 msk olía
  • 6 lauf fersk salvía
  • 50gr parmesan
  • hnífsoddur múskat
  • hnífsoddur salt
  • hnífsoddur pipar
  • 1dl rjómi

Hitaðu ofninn í 160°C.

Skerðu graskerið í 1cm bita, settu á bökunarpappír á plötu, settu smá ólífuolíu yfir og salt og pipar og blandaðu vel. Ristaðu í ofninum í 40 mínútur. Hrærðu vel í graskerinu eftir um 20 mín til að það ristist jafnt.

Á meðan graskerið er í ofninum þá skaltu skera og undirbúa annað hráefni.

Skerðu kúrbitinn afar þunnt, laukinn þunnt, merðu hvítlaukinn og saxaðu steinseljuna. Helmingaðu tómatana og rífðu parmesan ostinn.

Settu smjör og olíu á pönnu og steiktu salvíulaufin. Færðu þau yfir á disk.

Sjá einnig: Bragðarefur

Nú ætti graskerið að vera til.

Steiktu nú lauk og kúrbít og hvítlauk þar til verður mjúkt.

Settu tómatana og graskersbitana út í og kryddið. Steiktu í 2-3 mínútur. Slökktu undir pönnunni.

Nú er komið að því að sjóða gnocchiið.

Sjóddu vel salt vatn í potti. Láttu gnocchi bitana varlega í vatnið, ekki alla í einu. Þegar þeir eru soðnir þá fljóta þeir upp á yfirborðið. Láttu þá sjóða í 2 mínútur í viðbót og veiddu þá úr pottinum og settu á stórt fat. Dreifðu smá ólífuolíu yfir þá og haltu áfram að sjóða afganginn af bitunum.

Þegar allt er soðið og komið á fat þá kveikirðu aftur undir pönnunni með sósunni og setur 1 dl af rjóma út í og lætur hitna vel.
Helltu yfir gnocchiið á fatinu.

Berðu fram mað brakandi salati eða brauði.

SHARE