Quesadillas er smáréttur frá Mexíkó sem er vinæll og auðvelt að útbúa.
Quesadillas er upplagt að útbúa sem snakk í útileguna, sumarbústaðnum eða heima. Það sem þarf í réttinn eru tortillur, ostur og álegg eftir smekk. Bæði grænmeti og kjöt er hægt að nota sem fyllingu í quesadillas ásamt osti og hrísgrjónum, allt eftir smekk hvers og eins.
Fyllingin í þessari er brokkolí, sveppir, paprika, ostur og hrísgrjón. Grænmetið svissaði ég á pönnu.
Nauðsynlegt er að hafa salsasósu, gríska jógúrt og guacamole sem meðlæti og best er að útbúa bæði salsasósuna og guacamole-ið sjálfur, ásamt tortilla pönnukökunum.
Uppskriftin er miðuð fyrir 4-5
Tortilla pönnukökur
2 dl Heitt vatn
4 dl fínt spelt
1 msk ólífuolía
Smá salt
Setjið allt saman í skál og hnoðið þar til að festist ekki lengur við skálina. Þá er deiginu skipt niður í 5 hluta og hver hluti flattur út á hveiti sem stráð hefur verið yfir borðið, reynt er að hafa pönnukökurnar sem þynnstar. Best er að steikja þær síðan jafnóðum á vel heitri pönnu í ca. 1-2 mín á hvorri hlið, eða þar til þær hafa tekið lit. Geymið pönnukökurnar undir rökum klút og í plasti á meðan þið útbúið annað, þá haldast þær mjúkar og fínar. Síðan er gott að hita þær upp á pönnu með bræddum osti áður en fyllingin er sett á milli.
Salsasósa
1 tómatur
1/2 laukur
½ avocado
1 hvítlauksrif
nokkur lauf af ferskri basiliku
2 msk tómatmauk frá Rapunzel
1 msk sítrónusafi
1 msk Dijon sinnep
3 msk ólífuolía
Salt og pipar eftir smekk
Allt sett í matvinnsluvél og látið standa inni í ískáp í góða stund áður en borið er fram. Til að gera sósuna sterkari er hægt að bæta örlitlu af chilli út í.
Guacamole
2 stór og þroskuð Avacado
½ laukur
1 tómatur
4 hvítlauksrif, tvö fyrir þá sem vilja ekki eins sterkt hvítlauksbragð.
½ sítróna
1 tsk salt
Skerið avacado-in þversum, notið skeið til að ná steininum úr, skafið innan úr og setjið í matvinnsluvél. Pressið 4 hvítlauksrif út í, kreistið hálfa sítrónu yfir og stráið salti eftir smekk.
Verði ykkur að góðu.
Þóra er keramikhönnuður og starfar sem slíkur á vinnustofu sinni í Hafnarfirði ásamt pistlaskrifum og kennslu. Þóra reynir að tileinka sér umhverfisvæna mannasiði á sem flestum sviðum og notar t.d. sem náttúrulegust hráefni í hönnun sína. Hún hefur tekið þátt í fjölda sýninga bæði hér heima og ytra ásamt því að hafa komið að rekstri tengdum heilsu og hönnun.