Sara Lind fékk sortuæxli 21 árs – Stundaði mikið ljósabekki

Sara Lind Pálsdóttir greindist með sortuæxli í febrúar 2011, þá aðeins 21 árs gömul. „Það myndaðist lítill fæðingablettur á framhandleggnum á mér sem með tímanum fór að dökkna og stækka, hann var orðin næstum svartur þegar ég ákvað að láta tékka á honum. Var alltof kærulaus með þetta og hugsaði alltaf „það kemur ekkert fyrir mig“. Ég stundaði mikið ljósabekki þegar ég var yngri og hugsaði aldrei um hættuna sem fylgir því að fara mikið í ljós.“

Það þurfti að fjarlægja fæðingarblettinn strax og senda hann í rannsókn til að sjá hvort æxlið væri búið að dreifa sér. Það var framkvæmdur fleygskurður á handleggnum sem var 2 cm á alla kanta út frá blettinum og eftir það þurfti Sara bara að bíða eftir niðurstöðu úr rannsókninni. Þá fyrst kæmi í ljós hvort æxlið hefði dreift sér og hvort hún þyrfti að gangast undir krabbameinsmeðferð.

„Biðin eftir greiningunni var mjög erfið, bæði fyrir mig, vini og fjölskyldu. Ég var búin að búa mig undir að fá neikvæðar fréttir og kynnti mér betur hvað fylgir því að greinast með illkynja sortuæxli. Samt reyndi ég að vera bjartsýn og vona það besta,“ segir Sara.

Niðurstaða rannsóknarinnar sýndi að æxlið hafði ekki verið búið að dreifa sér en Sara situr uppi með ljótt ör á handleggnum: „Það var mikill léttir að vita að ég þyrfti ekki meiri meðferðir,“ segir Sara. „Ég þarf aftur á móti alltaf að vera undir ströngu eftirliti hjá húðlækni og fer alltaf á þriggja mánaða fresti í skoðun hjá honum.“

Sara segir að eftir þetta hafi lífið haldið sinn vanagang en nú passi hún sig mikið á sólinni og fari ekki í ljós. Ef hún er í sólinni, ber hún alltaf á sig sólarvörn og passar sig að brenna alls ekki. „Ef ég vil vera brún og sæt nota ég bara brúnkukrem eða fer í brúnkusprautun í stað þess að fara í ljós. Þegar ég greindist með sortuæxli var það líka mikil vitundarvakning fyrir marga í kringum mig og flest allar vinkonur mínar hafa til dæmis hætt að stunda ljósabekki,“ segir Sara að lokum.

Grein hún.is um sortuæxli. 

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here