Úlfatíminn – Milli 16 og 20 á daginn fer heimilið á hliðina

Það kannast eflaust allir við það þegar búið er að sækja börnin í leikskóla eða skóla á daginn og við tekur álagstími fyrir alla. Það þarf að fara í búðina og versla í matinn, íþróttaæfingar, láta börnin læra, baða börnin, elda, borða, hátta, ganga frá eftir matinn, helst setja í eina þvottavél, ganga frá þvotti, bursta tennur, lesa jafnvel og fara að sofa.

Oft hugsar maður eftir svona törn „æi ég hefði nú viljað gera eitthvað skemmtilegt með börnunum“ eða „ég vildi að ég hefði tíma til þess að gera eitthvað skemmtilegt með börnunum“, en tíminn er bara svo fljótur að líða og allt í einu er bara kominn háttatími.

Það er til heiti yfir þetta tímabil sem ég heyrði í fyrsta skipti nú á dögunum en það er „Úlfatími“ og þegar ég var að lesa um þetta á netinu þá rakst ég á síðu Gylfa Jóns Gylfasonar sálfræðings en hann hefur skrifað mikið um Úlfatímann:

Úlfatíminn varir frá þeirri stundu sem börn og fullorðnir koma heim úr vinnu og skóla og þangað til börnin eru sofnuð. Nafngiftin er dregin af því að á þessum tíma eru fjölskyldumeðlimir eins og úlfahópur að berjast um athygli hvers annars

Gylfi kemur líka með nokkur ráð sem gott er að temja sér:

  • Ekki eru til neinar algildar reglur um í hvaða röð á að gera hlutina en æskilegt er að heimanám fari fram svo fljótt sem auðið er eftir að heim er komið. Gott er að börn fái sér millibita áður en þau byrja á heimanámi. 
  • Sumum finnst gott að láta börnin læra við eldhúsborðið meðan verið er að elda þá er auðvelt að styðja við þau um leið og þess þarf. 
  • Verslaðu um helgar. Það er ástæðulaust að fara út úr húsi þegar börnin hafa mesta þörf fyrir þig. 
  • Ef þú ert með lítil börn og þarft örfáar mínútur í næði til að vinna ákveðið verk dreifðu þá nokkrum “Cheerios” hringjum eða rúsínum á borðbrún og þú hefur næði þangað til barnið er búið með það sem þú dreifðir. 
  • Reyndu að vinna verk sem þú þarft að vinna í næði meðan börnin eru að horfa á sjónvarp eða eru að gera eitthvað annað sem þú þarft ekki að standa yfir þeim. Stundum þarftu að koma þeim af stað í leik áður en þú færð næði. 
  • Settu hluta verkanna á eldri börn. Eðlilegur hluti af uppeldi er að kenna börnum að axla ábyrgð í samræmi við þroska. 
  • Virkjaðu makann 100% Á mjög mörgum heimilum ber einungis annað foreldrið hitann og þungann af úlfatímanum. Til dæmis sýnir nýleg íslensk rannsókn að einungis fimmti hver faðir á heimili aðstoðar við heimanám. 
  • Sittu í haugnum. þ.e. gerðu stórhreingerningar um helgar. 

Listinn gæti auðvitað verið mikið lengri en aðalatriðið er að vera vakandi fyrir því hvernig þú getur gert þér lífið auðveldara með því að lagfæra skipulagið á úlfatímanum.

 

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here