Fer í heitt bað á morgnana til að koma sér í rétta gírinn

„Ég held að ég hafi aldrei tekið þátt í jafn skemmtilegu verkefni,“ segir sjónvarpskonan Hugrún Halldórsdóttir.

Hugrún er einn af stjórnendum EM-umfjöllunar Símans ásamt Sigríði Þóru Ásgeirsdóttur, Þorsteini Joð og Gumma Ben og fleirum. Hún hefur verið í eldlínunni að undanförnu og fært okkur skemmtileg viðtöl og umfjallanir um mótið.

Þegar amk… ræddi við hana daginn eftir frábæran leik Íslendinga við Portúgali var Hugrún ennþá að jafna sig. „Já, það er stress í þessu,“ viðurkennir Hugrún. „Þó þetta sé skemmtilegasta verkefnið er það jafnframt eitt það mest krefjandi sem ég hef tekið þátt í. Ég fer í heitt bað á morgnana til að koma mér í rétta gírinn fyrir daginn.“
Hún segir að þessi fyrsti leikdagur Íslands hafi verið hreint ótrúlegur. „Það var svo mikið að gera að ég var ekkert búin að borða yfir daginn. Í hálfleik hljóp ég niður í kjallara til að borða og fyrir einhvern hálfvitaskap missti ég af marki Íslands. Húsið hristist allt í fagnaðarlátunum, þetta var eins og jarðskjálfti hefði gengið yfir. Ég var svona 90 prósent viss um að Ísland hefði verið að skora og hljóp upp á háu hælunum. Þegar ég kom upp í salinn í Gamla bíói fór það ekkert á milli mála. Ég sá markið í endursýningu og hóf að faðma næstu manneskjur, ókunnugt fólk. Þetta var einstök stund.“

27229 Hugrun 04587

Fylgistu mikið með fótbolta alla jafnan eða komstu alveg fersk að þessari umfjöllun?
„Ég var að æfa fótbolta þegar ég var yngri. Ég æfði með Breiðabliki og var alltaf í fótbolta í skólanum. Ég hef auðvitað fylgst með landsliðinu en ég fylgist ekki mikið með deildarkeppnum í fótbolta, smá þeirri spænsku kannski þegar ég bjó þar. Þannig að ég er áhugamanneskja en enginn sérfræðingur. Ég hef mjög gaman af fótbolta og missi ekki af stórmótum.“

Hugrún hefur verið viðloðandi fjölmiðla um nokkurra ára skeið og starfað mikið í sjónvarpi. Hún er menntaður hagfræðingur en slysaðist inn í fjölmiðlaheiminn þegar hún var enn í námi. „Ég var á lokaárinu þegar ég fékk vinnu á Morgunblaðinu. Ég var komin inn í nám í heilsuhagfræði í Svíþjóð en frestaði því um ár. Svo fékk ég atvinnutilboð frá Stöð 2 og frestaði því aftur um ár. Ég er ennþá í þessu og er sátt við að hafa valið þessa leið. Ég held að það henti mér mjög vel að vera svona í hringiðunni, að vera í mannlegum samskiptum,“ segir hún.
Síðasta verkefnið áður en hún kom inn í EM-umfjöllun Símans var að stýra gönguþáttum á Stöð 2. Það var mikið ástríðuverkefni hjá Hugrúnu. „Ég lifi fyrir útivistina en nú er ég í smá pásu. Fjöllin bíða aðeins meðan á þessu verkefni stendur.“

SHARE