Kristín fékk blóðtappa vegna pillunnar

Kristín Ásta Jónsdóttir er einstæð móðir sem býr í Noregi. Hún lenti í óskemmtilegri lífsreynslu á dögunum. Hún segir að hún hafi verið, eins og við flest, sannfærð um að ekkert þessu líkt myndi henda hana, en það gerði það samt. Kristín sagði frá þessari reynslu á Facebook.

„Ég skellti mér í tæplega 2ja daga mæðraorlof seint á sunnudagskvöldið og það sem það var stjanað við mann. Matur í rúmið amk 8 sinnum, endalaust komið með fría drykki og bráðskemmtilegir herbergisfélagar. Það var nánast ekkert sofið og mjög mikið af fjallmyndarlegum karlmönnum í einkennisklæðnaði og svo frír akstur báðar leiðir. Kom heim og sturtan, guð minn góður hún var eins og sturtan sem maður skellir sér í eftir að hafa verið 4 daga á Þjóðhátíð og heilsan núna, hún er örugglega bara svipuð og eftir 4ra daga þjóðhátíð.“

Leið eins og hún væri að kafna

Þó þetta hljómi afar vel er Kristín þarna að lýsa sjúkrahúslegu sem hún lenti í. Henni hafði ekki liðið vel í 2 vikur á undan og byrjaði þetta allt með verk í öxl, undir hægra brjósti og niður í mjöðm. Hún vaknaði svo um nóttina þar sem henni fannst hún vera að kafna: „Mig vantaði allt súrefni og nóttin fór í það að finna út hvernig ég gæti legið og alltaf þegar ég lagðist niður þá kom þessi köfnunartilfinning, þannig að ég svaf bara sitjandi. Ég fór til læknis strax daginn eftir, það var tekið hjartalínurit og blóðprufur og fleira og allt í góðu með allt en þetta talið vera einhver sýking og ég sett á viku skammt af sýklalyfjum en átti samt að koma aftur í vikunni.“

Fjórum dögum seinna fékk Kristín svakalegt svimakast og hafði aldrei upplifað annað eins. Það stóð enn yfir daginn eftir og fékk hún því vinkonu sína til að skutla sér í læknatímann sem hún átti bókaðan. Þar taldi læknirinn þetta jafnvel vera mígreni og var aðeins efins með hvort hann ætti að senda hana heim eða ekki, en heim fór hún og fékk meira af lyfjum í poka. „Daginn eftir, á sunnudegi var ég svo orðin hin “hressasta”, allur svimi og verkir horfnir. Svo hringir læknirinn á mánudeginum segist enn vera efins með að leggja mig ekki inn, en ég segi honum að mér líði orðið betur og sé bara að jafna mig. Ég fæ samt nýjan tíma hjá honum daginn eftir og í þeim tíma er ákveðið að panta segulómun fyrir mig og ef ég myndi finna einhver einkenni aftur, þá ætti ég strax að hafa samband við hann eða læknavaktina,“ segir Kristín í færslu sinni.

Fékk verkjastillandi sprautu

Seinni part á föstudaginn fannst Kristínu eins og það væru einhverjir verkir að byrja aftur en leiddi það hjá sér en leið ekki alltof vel aðfaranótt laugardags. Á aðfaranótt sunnudags byrjar hún aftur að fá þessa köfnunartilfinningu, getur alls ekki dregið djúpt andann og er með mikla og sára verki. Henni var svo skutlað á læknavaktina á sunnudagsmorgni.

„Þar var tékkað á mér hægri vinstri og læknirinn telur þetta vera nýrnasteina, ég fæ verkjastillandi sprautu og þar sem hún virkar, þá er ég send heim með verkjastillandi og sagt að ég eigi að hafa samband við heimilislækninn minn strax daginn eftir og láta ómskoða mig. Svo líður dagurinn og ég var bara ágætlega hress, finn svo að verkirnir eru að byrja að koma aftur um kvöldmatarleytið. Þegar þeir eru orðnir óþægilegir tek ég eina af þessum verkjastillandi töflum sem ég hafði fengið fyrr um daginn.“

Þegar líður á kvöldið eru verkirnir orðnir óbærilegir, verri en áður og Kristínu fannst þungt að anda, sérstaklega að draga andann djúpt, þannig að hún hringir aftur í læknavaktina og er kominn þangað fyrir klukkan ellefu.

Sjá einnig: Einfalt ráð til að sofna á 5 mínútum

Grunur um nýrnasteina og svo lungnabólgu

„Þar tekur á móti mér alveg einstaklega frábær hjúkrunarfræðingur (vinkona mín) og svo læknir sem skoðar mig hægri vinstri og að lokum er tekin sú ákvörðun að senda mig á sjúkrahúsið í Kongsvinger. Þegar þangað er komið er ég skoðuð aftur, teknar blóðprufur, talað við mig fram og tilbaka og svo ákveðið að senda mig í lugnamyndatöku. Fyrst kom ekkert út úr þeirri myndatöku en svo eftir frekari grennslan þá varð niðurstaðan sú að ég væri með lugnabólgu. Mér fannst það reyndar mjög skrítin niðurstaða svona miðað við einkennin en allt í lagi. Þannig að ég er lögð inn og það sem var fyrst grunur um nýrnasteina var nú orðið lugnabólga og ég fæ „kokteil“ í æð alls 7 sinnum í heildina á meðan ég er inni.“

Á mánudagsmorgni komu læknarnir á stofugang og einn af þeim segir uppúr þurru að hann vilji prófa að gera eitt próf í viðbót og senda Kristínu í röntgen. Á þriðjudagsmorguninn koma læknarnir svo aftur til hennar og tilkynna henni að þetta sé ekki lugnabólga, heldur séu þetta blóðtappar í lungunum. „Þar með er kokteilgjöf í æð hætt og það er komið með næstum hálft pilluglas til mín sem ég á að taka. Mér er sagt að ég megi fara heim, það þurfi að fara yfir lyfin mín því trúlega sé eitthvað af þeim að valda þessu. Þannig að ég fer heim með lyfseðil uppá lyf sem eiga að eyða töppunum. Mér fannst jú dálítið “scary” að fá þessa niðurstöðu en samt fegin að það var loksins komin lokaniðurstaða um hvað væri í gangi.“

Kristín fer heim og er enn verkjuð en öndunarerfiðleikarnir voru hættir. Hún á að taka því rólega um næstu 3 mánuðina í það minnsta. „Verkirnir koma þegar ég dreg djúpt andann, lyfti einhverju þungu (innkaupapokinn er nóg), og að geispa er hrikalega vont ég get ekki klárað að geispa. Ég get einungis legið á bakinu en verð samt að hafa mjög hátt undir höfðinu. Já og ég get ekki skafið af bílnum, prófaði það á föstudaginn og ein og hálf rúða var nóg,“

Sjá einnig: Vöðvabólgan var heilablæðing

Var látin hætta á pilluni umsvifalaust

Niðurstaða læknanna var að það var p-pillan sem var að valda þessum blóðtöppum. Pillan sem Kristín var á heitir Microgyn og samheitalyfin Oralcon og Melleva. „Ég var látin hætta að taka hana með „de samme“. Ég hef alltof oft lesið og heyrt talað um að þessi tegund geti valdið blóðtappa en ég, eins og eflaust margar aðrar konur, hef alltaf leitt þetta hjá mér og hugsað: „Þetta kemur ekki fyrir mig“, en svo kom þetta fyrir mig.“

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here